hosted by tripod
Tell me when this page is updated
Steypa dagsins

Steypa dagsins

 

29.11.05

de Quervain

Er búin að vera með leiðindaverk í vinstri hendinni í nokkrar vikur, en hef af alkunnri leti ekki nennt að gera neitt í málinu, þrátt fyrir að þetta hafi nú þvælst nokkuð fyrir mér. Ég hef bara brúkað hægri í staðinn, ekki það sem örvhentir vilja helst, en maður lætur sig nú hafa ýmislegt frekar en að druslast til læknis. Það var ekki fyrr en móðir mín benti mér kurteislega á það að fyrst að hún, amma og bróðir minn væru öll með gigt væri kannski ekki úr vegi fyrir mig að skella mér til gigtarlæknis til að láta tékka á því hvort ég væri að slást í hópinn. Fram að þessu hafði ég nú bara haldið í bjartsýni minni að ég hefði bara rekið höndina utaní og þetta færi nú alveg að lagast - búið að vera í 4 vikur og svona, hlyti að fara að vera búið. Ég pantaði því tíma hjá lækninum, sem er svo mikið innviklaður í fjölskylduna að frænka mín er ritari hjá honum. Á meðan ég beið eftir doksa spjölluðum við frænkurnar um það hvað væri gleðilegt til þess að vita að stærstur hluti fjölskyldunnar væri ýmist með gigt eða alzheimer, nema hvorutveggja væri. Við komumst að því að ef maður fengi gigtina væri líklega best að fá alzheimerinn líka, þá myndi maður kannski gleyma gigtinni ;-)
Loks tók Herr Doktor á móti mér, og ég lýsti raunum mínum fyrir honum. Glaðnaði þá heldur betur yfir sérfræðingnum og hann hóf að pota og pikka í höndina og snúa og toga eitthvað, og sagði svo glaðbeittur: "Þú ert með dukervein!". Eins og lesendur geta gert sér í hugarlund varð ég eins og spurningamerki í framan, og gat ekkert annað sagt en hið stórgáfulega HA? Kom þá í ljós að ég reyndist ekki vera með gigt heldur sinaskeiðabólgu í þumlinum, og mun það vera kennt við svissneska lækninn de Quervain - læknirinn sagði glaður að hann sæi nú ekki nema 2-3 tilfelli af þessu á ári, hlýtur að vera í miklu uppáhaldi hjá honum fyrst hann gladdist svona við. Ég gladdist eðlilega líka, ekki bara að ég væri ekki með gigt, heldur hét þetta þessu líka fína nafni maður! Uppáhaldsmeðferð læknisins við þessu er að gera ekki neitt, sem mér leist nú svosem ágætlega á, nema hvað að ég hef ekki gert neitt við þessu hingað til og lítið lagast. Við sammæltumst því um að ég reyndi að halda áfram að brúka hægri fram yfir jól, og ef ekkert lagaðist myndi hann sprauta sterum á staðinn. Needless to say, þá var þetta mér mikil hvatning til að gerast rétthent næstu 3 vikur, finnst ekkert sérstaklega gaman að láta sprauta mig.

23.11.05

Fleiri undarlegar netprófsniðurstöður

Which Fantasy/SciFi Character Are You?



Minnir mig nú bara á þetta


22.11.05

Þetta kom nú á óvart



Viðskiptajöfur

Þú ert nýjungagjörn, yfirveguð félagsvera.
Það fyrsta sem viðskiptajöfurinn hugsaði þegar Ólafur og Dorrit trúlofuðust var hvaða áhrif það myndi hafa á gengi íslensku krónunnar. Honum finnst Donald Trump vera svalur... líka peningaklemmur. Hann ætlar, er, var eða vildi að hann hefði verið í Versló - en ekki söngleiknum.

Viðskiptajöfurinn tekur ákvarðanir með heilanum en ekki hjartanu og þarf að hugsa sig um þegar einhver spyr hann: "Peningana eða lífið!?" Hann hefur stáltaugar og getur lagt allt undir og í framtíðinni verður viðskiptajöfurinn annað hvort moldríkur - eða staurblankur.

Það er toppurinn að vera í teinóttu.

Hvaða tröll ert þú?

19.11.05

Að verða foreldri

Fengum þetta í tölvupósti í dag frá Garðari Harðar, þeim ágæta frænda Bjarts á Stöðvarfirði. Gott að vita hvernig þetta verður með næsta barn ;-)

Að verða foreldri breytir öllu í lífi þínu. Foreldrahlutverkið breytist líka með hverju barni. Hér eru nokkur dæmi um hver breytingin verður frá fyrsta til þriðja barns.

Föt
1.barn: Þú ferð í óléttufötin um leið og þú ert búin að pissa á pinnann og fá tvö strik.
2.barn: Þú ert í þínum venjulegu fötum eins lengi og þú mögulega getur.
3.barn: Óléttufötin eru þín venjulegu föt.

Undirbúningur fyrir fæðingu
1.barn: Þú gerir öndunaræfingar, mjög samviskusamlega.
2.barn: Þú nennir ekki að æfa, vegna þess að þú manst að síðast gerðu öndunaræfingarnar ekkert gagn.
3.barn: Þú pantar mænudeyfingu strax á 8. mánuði.

Barnafötin
1.barn: Þú þværð öll litlu sætu fötin, straujar og brýtur saman og raðar í kommóðuna.
2.barn: Þú rennir í gegnum fatabunkann, hendir því sem er mjög blettótt og þværð restina.
3.barn: Strákar geta alveg verið í bleiku, er það ekki?

Áhyggjur
1.barn: Við fyrsta kjökur eða tíst sem heyrist úr vöggunni,rýkurðu til og tekur barnið upp.
2.barn: Þú tekur barnið upp, svo það veki ekki eldra barnið með vælinu.
3.barn: Þú kennir þriðja barninu að trekkja sjálft upp óróann yfir vöggunni.

Snuðið dettur í gólfið
1.barn: Þú tekur það upp og notar ekki aftur fyrr en þú ert búin að sjóða það rækilega.
2.barn: Þú skolar það undir næsta krana, eða bara með svolitlum ávaxtasafa úr glasi barnsins.
3.barn: Þú þurrkar það mesta af því í bolinn þinn og stingur því aftur upp í barnið.

Bleyjur
1.barn: Þú skiptir um bleyju á klukkutíma fresti, hvort sem þess er þörf eða ekki.
2.barn: Þú skiptir á 2-3 klst. fresti, ef þess þarf.
3.barn: Þú reynir að vera búin að skipta um bleyju, áður en aðrir fara að kvarta undan lyktinni, eða bleyjan dettur niður fyrir hné á barninu.

Afþreying
1.barn: Þú ferð með barnið í ungbarnasund, ungbarnanudd og barnaleikfimi.
2.barn: Þú ferð með barnið í ungbarnasund.
3.barn: Þú ferð með barnið í Kringluna og Smáralind.

Pössun
1.barn: Í fyrsta skipti sem þú ferð út, þá hringirðu heim 5 sinnum.
2.barn: Þú rétt manst eftir að skilja eftir númer þar sem hægt er að ná í þig.
3.barn: Þú segir barnfóstrunni að hringja bara ef það sést blóð.

Heima
1.barn: Þú eyðir góðum hluta dagsins í að stara á barnið.
2.barn: Þú eyðir góðum hluta dagsins í að stara á eldra barnið svo það klípi ekki eða poti í augun á nýja barninu.
3.barn: Þú eyðir góðum hluta dagsins í að fela þig fyrir börnunum.

14.11.05

 

 

 

[Powered by Blogger]