hosted by tripod
Tell me when this page is updated
Steypa dagsins

Steypa dagsins

 

28.10.05

Rok og meira rok

Það á ekki af manni að ganga í rokinu. Við Friðrik Valur fórum að skúra í Tónmenntaskólanum áðan, og vildi ekki betur til en að sólskyggnið (sem maður spyr sig hvað ég hafi verið að gera með að hafa á stólnum í þessu veðri!) sem er á bílstólnum hans fauk af og hélt á vit frelsisins áleiðis upp Frakkastíginn. Hefði ég ekki verið með barnið í höndunum hefði ég líklega skokkað á eftir því, en ef ég hefði ekki verið með barnið í höndunum hefði ég náttúrulega ekki verið með neinn stól með sólskyggni svo að þetta eru einstaklega ógáfulegar hugleiðingar...
Þar sem við erum með stólinn í láni frá systur hans Bjarts var þetta auðvitað afskaplega leiðinlegur atburður svo að þegar við vorum búin í skúringunum ákvað ég (í miklu bjartsýniskasti) að rúnta um nágrennið til að leita að skyggninu. Og viti menn, eftir 15 mínútna leit fann ég það liggjandi í snjóskafli inni í porti á téðum Frakkastíg! Urðu þar miklir fagnaðarfundir eins og nærri má geta.
Þegar við komum heim tók nú ekki betra við, þar sem að regnyfirbreiðslan var fokin af vagninum hans (sem við erum líka með í láni!) þar sem hann stendur hérna fyrir neðan tröppurnar! Ég ákvað að láta bara vera að hlaupa um allan Hafnarfjörð í leit að henni, sérstaklega í ljósi þess að það er mun minna mál að nálgast nýja regnyfirbreiðslu en að fá nýtt sólskyggni á stólinn. Fyrir utan það að yfirbreiðslan var rifin þannig að Eva systir verður bara fegin að fá nýja (eða ég vona það!).

22.10.05

Skírnarmyndir

Það eru loksins komnar myndir frá skírninni á
myndasíðuna!

17.10.05

Kynjamunur

Alveg finnst mér eitt merkilegt. Ég hef síðustu mánuðina verið að vinna við skúringar í Tónmenntaskólanum (fín vinna!) og hef rekið mig á eitt sem mér finnst dálítið fyndið. Í sal skólans eru haldnar hljómsveitaræfingar á kvöldin, ýmist fyrir strengja- eða blásarasveitir. Eftir strengjasveitaræfingarnar, þar sem er mikill meirihluti stelpur, er krítartaflan í salnum alltaf útkrotuð af "Katrín best" og "Sigga + Júlli" og álíka hlutum, og svo náttúrulega krítarryk út um allt, skúringakonunni til mikillar ánægju - eða þannig. Eftir blásarasveitaræfingarnar, þar sem er meirihlutinn strákar, heyrir hins vegar til undantekninga ef einhver hefur komið nálægt töflunni.

13.10.05

Ný síða

Friðrik Valur er kominn með
eigin síðu þar sem við munum (vonandi) skrifa um það sem á daga hans drífur. Aldrei að vita samt nema að eitthvað um hann villist nú inn á síður foreldranna samt sem áður. Síðan hans er http://fridrikvalur.blogspot.com/ , endilega lítið þangað inn og lesið allt um sætasta og gáfaðasta barn í heimi ;-)

10.10.05

Búin að skíra!

Þá hefur drengurinn fengið nafn, hann var skírður Friðrik Valur í Bessastaðakirkju í gær. Sr. Þórhildur Ólafs sá um að skíra, en foreldrarnir gátu auðvitað ekki annað en látið á sér bera (gekk auðvitað ekki að drengurinn fengi alla athyglina) og spiluðu bæði forspil og eftirspil. Sálmar voru hins vegar sungnir undirleikslaust og í röddum af kirkjugestum, og var vel tekið undir af báðum fjölskyldum :-) Veisla var svo haldin fyrir allt slektið heima hjá mömmu og pabba og voru veitingar síður en svo af skornum skammti, enda eru afgangar miklir, þannig að nú er lag að koma í heimsókn og fá sér tertur!
Svo ég svari spurningunni áður en einhver kemur með hana í kommentakerfinu (vorum spurð svo oft að þessu í gær) þá er Friðriksnafnið út í loftið, en flestir geta nú líklega fundið út hvaðan Valsnafnið kemur.

5.10.05

 

 

 

[Powered by Blogger]